Viðskipti innlent

Gengi krónunnar hefur styrkst seinni part sumarsins

Gengi krónunnar hefur styrkst þó nokkuð seinni part sumarsins. Í morgun stóð gengisvísitala krónunnar í 216,5 stigum en um miðjan síðasta mánuð var hún komin yfir 220 stig. Styrkingin nemur nær 2%.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að athyglisvert sé að sjá að hækkunin á gengi krónunnar hefur verið einna mest á móti hávaxtamyntum á borð við tyrknesku líruna, suður afríska randið og brasilíska realinn, svo og gjaldmiðlum Eyjaálfu, nýsjálenska dollaranum og ástralska dollaranum. Kemur þetta til vegna þess að gengi hávaxtamynta um heim allan hefur verið að lækka samhliða því að áhættufælni hefur farið vaxandi á fjármálamörkuðum.

Ætla má að gengi krónunnar hefði þróast með sama hætti ef ekki hefði verið fyrir höftin enda er krónan talin til hávaxtamynta en mikil fylgni var á milli þróunar á gengi krónunnar við aðrar hávaxtamyntir áður en  höftin voru sett á.

Af helstu myntum er það nær bara svissneski frankinn sem hefur verið að styrkjast meira en krónan að undanförnu en frankinn er lágvaxtamynt og styrkist því gjarnan þegar áhættufælni færist í aukanna á fjármálamörkuðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×