Viðskipti innlent

Góð afkoma Landsvirkjunar á fyrri hluta árs

Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir afkomubatann á fyrri árshelmingi vel viðunandi.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, segir afkomubatann á fyrri árshelmingi vel viðunandi. Mynd/GVA
Sex mánaða uppgjör Landsvirkjunar var birt í dag undir yfirskriftinni „Góð lausafjárstaða og sterkara sjóðstreymi". Hörður Arnarson forstjóri Landsvirkjunar telur afkomubatann á fyrri árshelmingi vel viðunandi. Í uppgjörinu segir hann þó að enn vanti upp á að fyrirtækið standist samanburð við erlend raforkufyrirtæki og kröfur erlendra matsfyrirtækja. Áfram verður unnið að því að bæta þær kennitölur.

Framkvæmdir við Búðarháls eru nú í fullum gangi og Landsvirkjun hefur tryggt fjármagn til verksins. Gert er ráð fyrir að virkjunin taki til starfa árið 2013. Næst á dagskrá eru verkefni á Norðausturlandi, virkjanir í Bjarnarflagi og Þeistareykjum.

Tímabilið í hnotskurn

Rekstrartekjur Landsvirkjunarsamstæðunnar hækkuðu um 20,3% eða 36,7 milljónir USD (4,19 milljarðar kr.) frá sama tímabili árið áður. Það skýrist aðallega af hærra orkuverði til iðnaðar, sem aftur kemur til af hækkandi álverði á heimsmarkaði.

Nettó skuldir Landsvirkjunar námu 2.684,8 milljónum USD (306 milljörðum kr.) í lok júní.  Til hækkunar á skuldum kemur reiknað gengistap vegna langtímaskulda félagsins. Nettó skuldir félagsins hækkuðu á tímabilinu, en þrátt fyrir það bötnuðu kennitölur þeim tengdar.

Eigið fé fyrirtækisins var 1.670 milljónir USD (190,5 milljarðar kr.) í lok júní. Eiginfjárhlutfallið hefur hækkað frá lokum árs 2010 úr 34,0% í 34,9%.

Landsvirkjun skilaði góðu sjóðstreymi á tímabilinu. Áhersla var á lausafjárstýringu í stað fjárfestinga og afborganir umfram lántökur námu 178,2 milljónum USD (20,3 milljörðum kr) á tímabilinu.

Álverði háð

Tekjur Landsvirkjunar eru enn að umtalsverðu leyti háðar álverði á heimsmarkaði. Álverð er viðunandi um þessar mundir. Því standa vonir til að sjóðsmyndun verði áfram góð þó óvissa verði um þróun álverðs næstu misseri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×