Viðskipti innlent

HB Grandi með rjómauppgjör á fyrri helmingi ársins

Hagnaður HB Granda á fyrri helming ársins nam 15,7 milljónum evra eða um 2,6 milljörðum kr. á gengi dagsins. Á sama tímabili í fyrra tapaði félagið 1,4 milljónum evra eða um 230 milljónum kr.

Í tilkynningu segir að rekstrartekjur HB Granda hf. á fyrri helmingi ársins 2011 námu 76,3 milljónum evra  samanborið við 60,4 milljónir evra  árið áður.  Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 25,2 milljónir evra eða 33,1% af rekstrartekjum, en var 19,0 milljónir evra eða 31,5% árið áður. 

Auknar tekjur og hærri EBITDA skýrast einkum af hærra afurðaverði á erlendum mörkuðum. Laun og launatengd gjöld námu samtals 28,3 milljónum evra (4,6 milljarðar króna), en 24,4 milljónum evra (4,1 milljarður króna) á sama tíma árið áður.

Heildareignir félagsins námu 314,0 milljónum evra  í lok júní 2011.  Eigið fé nam 153,9 milljónum evra og var eiginfjárhlutfall 49,0%, en var 46,5% í lok árs 2010. Heildarskuldir félagsins voru í júnílok 160,1 milljónum evra..

Séu niðurstöður efnahagsreiknings reiknaðar til íslenskra króna á gengi 30. júní 2011 (1 evra = 165,7 kr) verða eignir samtals 52,0 milljarðar króna, skuldir 26,5 milljarðar og eigið fé 25,5 milljarðar, að því er segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×