Viðskipti innlent

Gagnaveitan ekki á sölulista Orkuveitunnar

Símon Birgisson skrifar
Stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur telur hagsmunum fyrirtækisins best borgið með því að selja Gagnaveitu Reykjavíkur. Fulltrúi Sjálfstæðismanna í stjórn Orkuveitunnar telur ómögulegt að koma fyrirtækinu á kjöl án þess að Gagnaveitan verði seld.

Mótun eigendastefnu Orkuveitunnar er nú að ljúka en frestur til að skila inn athugasemdum rennur út á mánudaginn. Vilji er meðal helstu stjórnenda Orkuveitunnar að selja Gagnaveitu Reykjavíkur, eina verðmætustu eign Orkuveitunnar.

„Vissulega er gagnaveitan ein stærsta eign utan hefðbundinnar kjarnastarfsemi orkuveitunnar en hún er enn flokkuð sem kjarnastarfsemi og því ekki á sölulista," segir Flosi Tryggvason, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur en Kjartan Magnússon, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í stjórn orkuveitunnar lagði á fundi stjórnarinnar í vor fram tillögu um að gagnaveitan yrði seld.

Þeirri tillögu var vísað til eigendanefndar Orkuveitunnar þar sem ákvörðunin um söluna er pólitísk.

„En það er alveg ljóst í mínum huga að ef orkuveitan á að ná því markmiði að selja eignir fyrir tíu milljarða króna á næstu árum verði gagnaveitan að seljast þar með. Það er í raun ekki hægt að ná því markmiðið nema með því að selja gagnaveituna. Held það sé ekki gerlegt. Nema með því að selja innviði úr Orkuveitunni sem ég vona að sé ekki ætlunin," segir Kjartan.

Haraldur segir sölu gagnaveitunnar ekki í pólitískri herkví.

„Það vil ég ekki meina. Það er verið að fjalla um það á pólitískum vettvangi og þetta sýnir að hlutirnir ganga rétt fyrir sig," Haraldur Flosi. „En auðvitað væri það mikill fengur að geta sett hana í sölumeðferð til að styrkja þessa áætlun," bætir Haraldur við.

„Þú myndir vilja selja?"

„Ég myndi skoða það jákvæðum augum," svarar Haraldur að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×