Viðskipti innlent

Sveitarfélögin eiga hátt í 5.000 leiguíbúðir

Leiguíbúðir í eigu sveitarfélaga voru 4.656 talsins í fyrra og hafði þá fjölgað um 69 frá fyrra ári. Eftirspurn eftir leiguhúsnæði hefur aukist, íbúðum sem standa auðar hefur fækkað umtalsvert og æ fleiri sveitarfélög greiða nú sérstakar húsaleigubætur.

Þetta er meðal niðurstaðna úr nýrri könnun Varasjóðs húsnæðismála en fjallað er um málið á vefsíðu velferðarráðuneytisins.

Könnunin var gerð að ósk velferðarráðuneytisins til þess að afla upplýsinga um stöðu leiguíbúðakerfis sveitarfélaganna við lok árs 2010 en sambærilegar kannanir hafa verið gerðar frá árinu 2004. Spurningalistar voru sendir öllum 76 sveitarfélögum landsins. Svör bárust frá 67 þeirra en í þeim sveitarfélögum bjuggu þá um 97,5% íbúa landsins.

Í könnuninni var meðal annars spurt um mat á framboði og eftirspurn eftir leiguhúsnæði í viðkomandi sveitarfélagi. Af 61 sveitarfélagi sem svaraði spurningunni töldu 27 þeirra að jafnvægi væri á markaðnum, 26 að skortur væri á leiguhúsnæði en átta sveitarfélög töldu offramboð á því. Miðað við könnun frá árinu 2009 hefur þeim sveitarfélögum fjölgað sem telja að skortur sé á leiguhúsnæði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×