Viðskipti innlent

Turner vill kaupa Latabæ á 1,4 milljarða

Fjölmiðlarisinn Turner Broadcasting System, sem tilheyrir Time Warner, býðst til að greiða 12 milljónir dollara eða 1,4 milljarða kr.  fyrir allt hlutafé Latabæjar.

Þetta kemur fram í Viðskiptablaðinu í dag. Þar segir að félag í eigu bandaríska fjölmiðlarisans Turner Broadcasting System hefur lagt fram yfirtökutilboð í allt hlutafé Latabæjar.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins býður Turner um 20% hærra verð en félagið var metið á við fjárhagslega endurskipulagningu sem lauk um síðasta sumar.

Virði hlutafjár er samkvæmt tilboðinu metið á 12 milljónir dollara, jafnvirði rúmlega 1,4 milljarða króna. Skuldir félagsins nema um 2,5 milljónum dollara og er heildarvirði Latabæjar metið á 14,6-15,1 milljón dollara, um 1,7 milljarða króna miðað við núverandi gengi.

Stjórn Latabæjar hefur leitað að erlendum fjárfestum frá því að endurskipulagningu lauk, með það að markmiði að gera Latabæ kleift að vaxa. Við endurskipulagningu eignuðust kröfuhafar 60% hlutafjár í félaginu. Magnús Scheving, stofnandi og forstjóri félagsins, og eiginkona hans Ragnheiður Melsteð halda um 40% hlut.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×