Viðskipti innlent

Kröfuhafar Kaupþings vilja nauðasamninga

Kröfuhafar Kaupþings vilja að leitað verði nauðasamninga til að ljúka slitameðferð bankans frekar en að óskað verði eftir gjaldþrotaskiptum í búinu. Þetta kemur fram í frétt á vefsíðu slitastjórnar og skilanefndar Kaupþings.

Í fréttinni segir að Sem hluti af hugsanlegri heildarendurskipulagningu Kaupþings banka hf.  voru fjárhagsráðgjafar sröfuhafa Houlihan Lokey (Europe) Limited og Deutsche Bank AG Risk Advisory Services fengnir til að framkvæma áreiðanleikakönnun og greiningu á eignum Kaupþings miðað við árslok 2010 og gera grein fyrir niðurstöðum sínum í skýrslu. Lokið var við gerð skýrslunnar í júní 2011 og er hún nú aðgengileg á gagnasvæði Kaupþings.

„Eins og komið hefur fram áður þá eru tvær leiðir til að ljúka slitameðferð bankans á grundvelli íslenskra laga, þ.e. með nauðasamningum við kröfuhafa eða með gjaldþrotaskiptum. Núverandi slitameðferð er hinsvegar tímabundið ferli fyrir bankann,“ segir í fréttinni.

„Samkvæmt íslenskum lögum getur bankinn einungis verið í slitameðferð svo fremi sem stefnt sé að því að ná fram nauðasamningum við kröfuhafa. Ef það er ljóst að ekki séu forsendur að nauðasamningum við kröfuhafa ber slitastjórn samkvæmt ... lögum um fjármálafyrirtæki að óska eftir gjaldþrotaskiptum.“

Valkostir varðandi framtíðarskipan bankans voru fyrst kynntir opinberlega á opnum fundi skilanefndar með kröfuhöfum í febrúar 2009 og á sama tíma í kröfuhafaskýrslu bankans.

Ítarlegri kynning á þessum valkostum fór svo fram á opnum fundum með kröfuhöfum 3. desember 2010, 10. mars 2011 og 13. apríl 2011 þar sem leitað var eftir viðbrögðum frá kröfuhöfum varðandi framtíðarskipan bankans. Kröfuhafar sem hafa komið skoðunum sínum á framfæri við skilanefnd og slitastjórn Kaupþings telja ákjósanlegast að leita nauðasamninga eins fljótt og auðið er, að því er segir í fréttinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×