Viðskipti innlent

Moody´s segir mikla áhættu í 5 ára áætlun OR

Matsfyrirtækið Moody´s segir að mikil áhætta sé fólgin í fimm ára áætlun Orkuveitu Reykjavíkur (OR) um rekstur sinn fram til ársins 2016. Áhættan sé m.a. fólgin í vaxtastigi, gengisþróun krónunnar og verðþróun á hrávörum.

Moody´s setti lánshæfiseinkunn OR dýpra niður í ruslið s.l. föstudag eða úr Ba2 og niður í B1 með neikvæðum horfum. Í frétt sem Moody´s sendi frá sér kemur fram að fyrrgreind áhætta sé meðal þess sem olli því að einkunnin var lækkuð.

Þá séu ýmis atriði í áætlun OR háð markaðsaðstæðum eins og til dæmis sala á eignum sem ekki tilheyra kjarnastarfsemi OR. Þar er meðal annars átt við Perluna. Einnig sé OR háð verðþróun á áli á heimsmarkaði.

Moody´s telur að ef illa fari í fimm ára áætlun OR sé hætta á að eigandi fyrirtækisins, Reykavíkurborg, verði ekki í stakk búin til að hlaupa undir bagga með OR. Hið sama eigi við um íslensk stjórnvöld.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×