Viðskipti innlent

Létu Glitni lána Byr til þess að tryggja framhaldslíf FL Group

Jón Ásgeir Jóhannesson og Jón Sigurðsson á fundi FL Group.
Jón Ásgeir Jóhannesson og Jón Sigurðsson á fundi FL Group.
Eignarhaldsfélagið FL Group, þá stærsti eigandi Glitnis, fékk þrjá milljarða lánaða frá sparisjóðnum BYR í lok mars árið 2008. Athygli vekur að Glitnir lánaði BYR þrjá milljarða á móti.

Svo virðist sem að um flókna fléttu hafi verið að ræða þar sem tilgangurinn var að veita FL Group framhaldslíf, en félagið átti í gríðarlegum erfiðleikum á þessum tíma.

Það er DV sem greinir frá því í dag að Glitnir hafi lánað BYR þrjá milljarða, sem endaði á því að BYR lánaði FL Group peninginn.

FL Group var á þessum tíma stærsti hluthafi Glitnis. Samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var Glitnir búinn að lána FL Group svo mikið að bankinn gat ekki lánað félaginu meira vegna reglna um stórar áhættuskuldbindingar. Því gat FL Group ekki gengið óhindrað í hirslur bankans, eins og eigendur hafa verið sakaðir um af slitastjórn bankans.

Svo virðist sem skapandi hugsun hafi orðið ofan á. Í frétt DV kemur fram að lánafyrirgreiðslan hafi farið fram 30. mars 2008.

Í tölvupósti sem blaðið hefur undir höndum segir: „Eins og fram hefur komið í samtölum þá er samningur okkar við Glitni forsenda þessa samnings og honum hefur ekki verið lokið."

Byr lánaði FL Group því aðeins vegna þess að sparisjóðurinn fékk jafnhátt lán frá Glitni á móti.

Í DV segir að það veki athygli að Byr kom þessari ábendingu á framfæri við FL Group en ekki Glitni, enda eru engin bein samskipti á milli Byrs og Glitnis í þeim gögnum sem DV hefur undir höndum.

FL Group virðist því hafa séð alfarið um samningaviðræðurnar við Byr vegna milljarða króna láns frá Glitni.

Þegar málið var borið undir Jón Ásgeir Jóhannesson, einn af eigendum FL Group, benti hann á Jón Sigurðsson, þáverandi forstjóra félagsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×