Viðskipti innlent

Össur hf. lyfti lífeyrissjóðum yfir 2.000 milljarða markið

Eignir lífeyrissjóðanna eru komnar yfir 2.000 milljarða kr. markið og segja má að kaup þeirra á stórum hlut í Össuri hf. hafi m.a. ýtt þeim yfir þetta mark. Einnig spilar aukning á erlendum eignum sjóðanna inn í dæmið.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að aukninguna á innlendum hlutabréfum í safni lífeyrissjóðanna má að mestu leyti rekja til kaupa sumra þeirra á talsvert stórum hlut í Össuri af Eyri invest, sem tilkynnt var um í lok maímánaðar.

Til að mynda tilkynntu tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins, Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi, um kaup á bréfum fyrir samtals 4 milljarða kr. í maílok, miðað við markaðsverð á þeim tíma. Alls seldi Eyrir bréf fyrir u.þ.b. 9 milljarða kr. að markaðsverði og trúlega hafa fleiri lífeyrissjóðir verið meðal kaupenda bréfanna þótt þeir hafi ekki verið tilkynningaskyldir um kaup sín eins og framangreindir sjóðir.

Aukningu á erlendri verðbréfaeign sjóðanna má að hluta skýra með 1,5% veikingu krónunnar í maímánuði. Aukning á eign í ríkisbréfum er hins vegar athyglisverð í ljósi þess að samkvæmt Markaðsupplýsingum Lánamála voru lífeyrissjóðir atkvæðalitlir í ríkisbréfaútboðum maímánaðar. Þar sem kúfurinn af ríkisbréfaeign sjóðanna er í óverðtryggðum bréfum, og verðbólga hefur því lítil áhrif á höfuðstól þeirra, virðast þeir hafa verið nokkuð stórtækir kaupendur á eftirmarkaði í maímánuði.

Í maílok námu erlendar eignir lífeyrissjóða 497 milljörðum kr., sem samsvarar rétt tæpum fjórðungi af heildareignum þeirra. Á sama tíma voru tæplega 59% eigna sjóðanna í innlendum skuldabréfum og verðbréfasjóðum, eða sem nemur alls ríflega 1.177 milljörðum kr.

Þar af nam eign sjóðanna í íbúðabréfum og forverum þeirra rúmlega 584 milljörðum kr., og að viðbættum sjóðfélagalánum sjóðanna sjálfra voru 760 milljarðar kr., sem samsvarar 38% af eignum lífeyrissjóða í formi verðtryggðra húsnæðisskuldabréfa. Lífeyrissjóðirnir eru því sem fyrr beint og óbeint langstærstu lánardrottnar íslenskra húseigenda, að því er segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×