Viðskipti innlent

Keyptu gjaldeyrinn með óbundnum innistæðum

Þeir sem nýttu sér kaup á gjaldeyri í útboði Seðlabankans í gærdag greiddu fyrir alla upphæðina af óbundnum innistæðum á Íslandi. Enginn nýtti sér tækifærið til að losa sig við ríkisskuldabréf í útboðinu eins og möguleiki var á.

Í tilkynningu sem Lánamál ríkisins sendu til Kauphallarinnar um málið segir: „Í tilkynningu Lánamála ríkisins þann 28. mars 2011 kemur fram að kaupendur gjaldeyris í útboðum Seðlabanka Íslands geti selt ríkissjóði ríkisvíxla og ríkisbréf með gjalddaga fyrir árslok 2013 til fjármögnunar á gjaldeyriskaupum. Í fréttatilkynningum 6. og 8 júlí tilkynntu Lánamálin kjörin sem buðust kaupendum gjaldeyris í fyrsta útboðinu sem var haldið í gær, 12. júlí.

Kaupendur gjaldeyris nýttu sér ekki þennan rétt og því keyptu Lánamál ríkisins f.h. ríkissjóðs ekkert af ríkisskuldabréfum.“

Í fyrsta útboði Seðlabankans um kaup á gjaldeyri í vor keyptu Lánamál ríkisins ríkisskuldabréf fyrir 300 milljónir kr.  en þá var seldur gjaldeyrir fyrir tæpa 15 milljarða kr. eins og í útboðinu í gær.

Þá ályktun má draga af þessu að þeir sem kallast þolinmóðir erlendir fjárfestar vilja halda áfram ríkisskuldabréfaeign sinni hérlendis. Slíkt ber merki um ákveðið traust á íslenskum efnahag.

Á óbundnum innistæðureikningum liggur fé erlendra aðila á fremur lágum vöxtum og því hafa að öllum líkindum hinir óþolinmóðu fjárfestar notað tækifærið til að breyta þeim innistæðum í gjaldeyri í útboði  Seðlabankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×