Viðskipti innlent

Ergo býður sérkjör á grænum bílalánum

Ergo, fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka, hefur ákveðið að bjóða viðskiptavinum sínum upp á sérkjör á bílalánum til kaupa á orkusparandi bifreiðum.

Í tilkynningu segir að með þessu vill Ergo hvetja viðskiptavini sína til þess að velja „græna“ kosti í bifreiðakaupum og stuðla að hagkvæmari rekstri bifreiða og betri nýtingu eldsneytis.

Í þessu felst að Ergo fellir niður lántökugjöld af bifreiðum í útblástursflokki A, B og C út árið 2011 og á þetta við bæði um bílasamninga og bílalán. Kjörin eru miðuð við bíla sem menga 0-120 g af CO2 á hvern ekinn kílómetra.

Sem dæmi má nefna  viðskiptavin sem tekur 3 milljóna króna lán til kaupa á bifreið. Með því að kaupa „græna“ bifreið í útblásturflokknum A, B og C fellur niður lántökukostnaður að upphæð  105.000 kr.

Í dag,  13. júlí opnar Ergo nýjan vef, www.ergo.is,  þar sem verður að finna reiknivélar til þess að reikna kostnað við fjármögnun bifreiða og tækja, rekstrarkostnað bifreiða, eldsneytiskostnað og útblástur, mengun og ferðakostnað.  Að auki verður að finna ýmsan  „grænan“ fróðleik um umferð og bifreiðar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×