Viðskipti innlent

Seðlabankastjóri segir þróunina í rétta átt

Hafsteinn Hauksson skrifar
Eigendur aflandskróna losuðu sig við krónur við sterkara gengi í öðru gjaldeyrisútboði Seðlabankans en því fyrsta. Seðlabankastjóri segir þróunina í rétta átt, þó útboðin gefi takmarkaðar upplýsingar.

Í fyrra útboðinu samþykkti Seðlabankinn tilboð í hverja evru fyrir tæpar 219 krónur að meðaltali, en nú var gengið lítið eitt sterkara, eða rúmar 216 krónur. Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, varar við því að draga of miklar ályktanir af niðurstöðum fyrstu útboðanna um þrýsting á krónuna, og bendir á að hugsanlega bjóði fjárfestar taktískt þar sem um röð útboða er að ræða. Þróunin sé þó í rétta átt.

„Áætlunin sem við erum með gengur út á það að þessi útboð munu smám saman færa aflandsgengið nær álandsgenginu," segir Már. „Þetta rímar við það."

Útboðin gefa einhverja vísbendingu um útstreymisþrýsting aflandskrónanna, með öðrum orðum hversu mikið einstökum fjármagnseigendum liggur á að komast út úr landinu. Ef þeir bjóða mjög hátt verð fyrir evrurnar, sem jafngildir veiku gengi krónu, þýðir það að þeir eru tilbúnir að sætta sig við mikil afföll á fjárfestingum sínum og það er þrýstingur til lækkunar á gengi krónunnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×