Viðskipti innlent

Verkfall hefur ekki áhrif hjá Faxaflóahöfnum

Jón Þorvaldsson, aðstoðarhafnarstjóri Faxaflóahafna sf. segir að hugsanlegt verkfall hafnsögumanna muni ekki hafa áhrifa hjá Faxaflóahöfnum né trufla komur skemmtiferðaskipa þangað. Faxaflóahafnir séu búnar að semja við hafnsögumenn sína.

Í yfirlýsingu á vefsíðu Faxaflóahafna segir Jón: „Í tilefni umræðu um hugsanlegt verkfall hafnsögumanna skal tekið fram að Faxaflóahafnir sf. hafa lokið gerð kjarasamninga við alla sína starfsmenn þ.m.t. starfsmenn hafnarþjónustu og hafnsögumenn. Fréttir um boðuð verkföll og verkfallsaðgerðir hafnsögumanna eiga því ekki við um Faxaflóahafnir sf.

Öll þjónusta hafnar og móttaka skipa á starfsvæði fyrirtækisins mun því ekki verða fyrir neinni röskun þó til hugsanlegra verkfallsaðgerða geti komið á öðrum höfnum landsins.

Komur allra skipa til hafna á starfssvæði Faxaflóahafna sf eru því tryggar þar með talin koma skemmtiferðaskipa, sem hingað hafa boðað komu sína og ekki verður um neina röskun að ræða og eða að skip þurfi frá að hverfa.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×