Viðskipti innlent

Kortanotkun útlendinga eykst verulega milli ára

Erlendir ferðamenn keyptu vöru og þjónustu fyrir sem nam tæpum 8 milljörðum kr. með greiðslukortum í júní síðastliðnum. Jafngildir það 16,5% aukningu milli ára að raungildi, sem verður að teljast býsna gott, og í raun í takti við kortanotkun landans á erlendri grund.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem gluggað er í tölur Seðlabankans um kortaveltu hérlendis í júní s.l.  Innanlands jókst kortaveltan milli ára um 6% að raungildi en kortavelta Íslendinga erlendis jókst um 19%.

Á öðrum  ársfjórðungi í heild var lítilsháttar halli á kortajöfnuðinum, þ.e. kortanotkun útlendinga hér á landi að frádreginni kortanotkun Íslendinga erlendis. Nam hallinn 816 milljónum kr., en á sama tíma í fyrra var 449 milljóna kr. afgangur af kortajöfnuðinum.

 

„Allar líkur eru á að afgangur af kortajöfnuði verði verulegur á þriðja fjórðungi ársins, en þó gæti hann reynst öllu minni en raunin var í fyrra þegar afgangurinn nam 8,8 milljörðum kr. á þriðja fjórðungi ársins,“ segir í Morgunkorninu.

„Ágæt fylgni er á milli kortajafnaðar og þjónustujafnaðar, og teljum við að líkt og með kortajöfnuðinn kunni afgangur af þjónustujöfnuði, og þar með innflæði gjaldeyris vegna hans, á 3. fjórðungi ársins að reynast öllu minni í ár en í fyrra.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×