Viðskipti innlent

Vöxtur einkaneyslu ekki meiri síðan fyrir hrun

Myndarlegur vöxtur var í einkaneyslu á öðrum fjórðungi ársins ef marka má tölur um greiðslumiðlun. Raunar benda nýjustu tölur til þess að vöxturinn hafi ekki verið jafn hraður frá því fyrir hrun.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Í nýlega birtum tölum Seðlabankans um greiðslumiðlun kemur meðal annars fram að kreditkortavelta í júní nam alls 29,1 milljörðum kr., sem jafngildir tæplega 6% aukningu að raungildi milli ára.

Líkt og undanfarið var aukningin mun meiri í erlendri kreditkortaveltu (tæplega 19%) meðan innlend kreditkortavelta jókst að raungildi um 3% á milli ára. Aukning innlendrar veltu milli ára var raunar sú minnsta að raungildi frá febrúar síðastliðnum, sem er athyglisvert í ljósi þess að landinn hefur væntanlega séð fram á rýmri fjárráð í júní eftir nýgerða kjarasamninga.

„Samantekin raunaukning kreditkortaveltu og innlendrar debetkortaveltu einstaklinga gefur góða mynd af þróun einkaneyslu,“ segir í Morgunkorninu.

„Einföld aðhvarfsgreining bendir þannig til að einkaneysla hafi aukist um 5 - 7% að raungildi á öðrum fjórðungi ársins frá sama tímabili í fyrra. Ef rétt reynist er það hraðasta aukning einkaneyslu frá því á 1. fjórðungi ársins 2008, þegar hún reyndist 7,9% samkvæmt tölum Hagstofu. Einkaneysla óx um 1,5% á 1. fjórðungi yfirstandandi árs frá sama tíma í fyrra, og benda því framangreindar tölur til þess að vöxtur einkaneyslu á fyrri helmingi ársins hafi verið á bilinu 3 -  4%.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×