Viðskipti innlent

Spáir því að verðbólgan verði 4,9% í júlí

Greining Íslandsbanka spáir því að vísitala neysluverðs (VNV) verði óbreytt í júlí frá fyrri mánuði. Gangi spáin eftir eykst 12 mánaða verðbólga úr 4,2% í 4,9% í júlímánuði. Hagstofan birtir VNV fyrir júlí kl.9 þann 25. júlí næstkomandi.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningarinnar. Þar segir að í mælingu júlímánaðar muni vegast á lækkunaráhrif vegna sumarútsala og hækkunaráhrif vegna veikingar krónu, hækkunar launa á vinnumarkaði og verðhækkunar á íbúðamarkaði.

„Sumarútsölur eru komnar í fullan gang og gerum við ráð fyrir nærri 10% lækkun á fata- og skóverði í júlí vegna þeirra (-0,5% áhrif í VNV). Útsölur hafa einnig nokkur lækkunaráhrif í ýmsum öðrum liðum varanlegra og hálfvaranlegra neysluvara," segir í Morgunkorninu.

„Á móti þessu kemur að áhrif af kjarasamningunum sem gengu í gildi í júníbyrjun eru nú farin að koma fram, til að mynda í u.þ.b. 5% hækkun á mjólkurvörum sem tilkynnt var um fyrir síðustu mánaðamót. Þá heldur verð innfluttra vara væntanlega áfram að þokast upp á við vegna veikingar krónu undanfarna mánuði, en frá áramótum hefur krónan veikst um ríflega 5% gagnvart körfu helstu viðskiptamynta.

Verðþrýstingur vegna hækkunar á hrávöruverði erlendis fer hins vegar minnkandi, þar sem verð ýmissa landbúnaðarvara hefur lækkað nokkuð á heimsmarkaði undanfarna mánuði mikla hækkun frá miðju síðasta ári til loka febrúar síðastliðins.

Lítið lát virðist á verðhækkun á íbúðamarkaði, og gerum við ráð fyrir að áhrif hennar í júlí verði til 0,15% hækkunar á VNV. Þá teljum við að hækkun á ýmsum liðum sem tengjast ferðum og flutningum, svo sem eldsneytisverði og veggjöldum um Hvalfjarðargöng, vegi til 0,1% hækkunar á VNV."

Þá segir að verðbólguhorfur fyrir yfirstandandi ár séu nú mun lakari en útlit var fyrir í upphafi árs.

„Við gerum ráð fyrir að VNV hækki talsvert fram til loka 3. ársfjórðungs. Þannig spáum við samtals 1,3% hækkun vísitölunnar í ágúst og september, þegar útsöluáhrif ganga til baka og áhrif kjarasamninga koma enn frekar fram," segir í Morgunkorninu.

„Verðbólga mun þá mælast 6% í september, gangi spá okkar eftir, og verða á svipuðu róli fram yfir áramót. Í kjölfarið gerum við ráð fyrir að aftur dragi úr verðbólgunni og að hún mælist tæplega 4% yfir árið 2012. Ekki er hins vegar útlit fyrir að verðbólga verði við 2,5% markmið Seðlabankans, eins og sett er sem skilyrði fyrir áframhaldandi gildi kjarasamninga eftir þarnæstu áramót, nema krónan styrkist talsvert og/eða orku- og hrávöruverð lækki verulega að nýju."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×