Viðskipti innlent

Setur upp fyrsta kolefnisfría tölvuskýi veraldar

Tölvuþjónustan SecurStore ehf. (Securstore) og Rackspace hafa undirritað samkomulag um uppsetningu á fyrsta kolefnisfría tölvuskýi veraldar. Samkomulagið felur í sér að Securstore setur upp hugbúnað frá Rackspace í gagnaveri sínu á Íslandi.

Í tilkynningu segir að fyrsti áfangi sem snýr að vistun gagna, hafi þegar verið tekinn í notkun, og mun Securstore ásamt dótturfélagi sínu Securstore UK ltd. bjóða viðskiptavinum um allan heim að vista gögn sín þar. Síðar á árinu verður svo boðið upp á sýndarvefþjóna.

Rackspace er meðal allra stærstu fyrirtækja í hýsingu gagna og skýlausnum en hugbúnaðurinn sem hið umhverfisvæna Ský byggist á er þróaður sameiginlega af um það bil 60 fyrirtækjum, þ.m.t. RackSpace og bandarísku geimferðastofnuninni NASA.

Tölvuþjónustan SecurStore hefur ásamt dótturfyrirtæki sínu í Bretlandi (SecurStore UK Ltd) frá árinu 2004 boðið fyrirtækjum hérlendis sem erlendis afritun gagna y_r netið inn í afritunarský þess. Viðskiptavinir eru nú á fimmta hundrað um allan heim.

Hið nýja tölvuský getur tekið við gögnum frá einstaklingum og fyrirtækjum eftir mörgum mismunandi leiðum, og íslensk fyrirtæki geta nýtt sér það sem sinn aðalvistunarmöguleika. Tölvuský Securstore, sem verður markaðsett erlendis undir nafninu “GreenParkData” er hannað með mikið öryggi í huga og eru öll gögn sem vistuð eru þar geymd í að minnsta kosti þremur útgáfum í tveimur gagnaverum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×