Viðskipti innlent

Mikið kvartað undan skorti á verðmerkingum

Mikið er kvartað undan skorti á verðmerkingum á kjötvörum til Neytendasamtakanna og ljóst er að margir eiga erfitt með að sætta sig við skannana sem settir hafa verið upp eftir að bann við forverðmerkingum tók gildi.

Þá eru verðmerkingar í kjötkælum oft slæmar og erfitt að finna réttu upplýsingarnar á hillukanti eða á spjöldum þar sem verð eru listuð upp.

Neytendasamtökin hafa af þessu nokkrar áhyggjur enda er mjög mikilvægt að neytendur geti á einfaldan hátt skoðað verð og tekið meðvitaða ákvörðun um kaup. Ef verðupplýsingar eru gagnsæjar og aðgengilegar eru minni líkur á að seljendur komist upp með að hækka verð því neytendur geta haldið þeim við efnið.

„Ég er mest hissa á að einstaka verslanir skuli ekki sjá tækifæri í því að verðmerkja vel og jafnvel vigta sjálfar vörurnar baka til. Vissulega felst í því einhver kostnaður en ef neytendur krefjast betri merkinga ættu verslanir að verða við þeim kröfum og fá að launum meiri viðskipti," segir Brynhildur Pétursdóttir hjá Neytendasamtökunum.

„Á samkeppnismarkaði hljóta fyrirtæki ávallt að leita leiða til að skjóta keppinautunum ref fyrir rass. Ég hefði haldið að þetta væri mikilvægari þjónusta en t.d. langur opnunartími og eitthvað sem neytendur kynnu betur að meta".

Brynhildur segir að Neytendasamtökin séu ekki andvíg því að forverðmerkingar hafi verið bannaðar enda í hæsta máta óeðlilegt að sama verð sé á vörum sem sendar eru í allar verslanir. Afsláttamiðar sem sumar verslanir límdu síðan á sínar vörur voru villandi því í raun var ekki um neinn afslátt eða tilboð að ræða heldur einfaldlega lægri álagningu en mátti hugsanlega finna í annarri verslun. Vissulega var hentugt fyrir verslanir að fá vörur verðmerktar beint frá heildsala en þar sem það er nú bannað verða verslanir að finna aðra laus sem neytendur sætta sig við.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×