Viðskipti innlent

Veiðigjaldið hækkað, skilar 4,5 milljörðum

Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur ákveðið að veiðigjald komandi fiskveiðiárs verði 9,46 krónur af hverju lönduðu þorskígildiskílói og er áætlað að það skili um 4500 milljónum króna í ríkissjóð. Það er umtalsverð hækkun frá yfirstandandi fiskveiðiári þar sem reiknað er með að veiðigjaldið skili um 2700 milljónum kr.

Í tilkynningu segir að hækkunin nú skýrist af auknum aflaheimildum og því að Alþingi ákvað með breytingum á lögum um stjórn fiskveiða að hækka gjaldið úr 9,5% í 13,3% af reiknaðri framlegð. Þannig er veiðigjald á yfirstandandi fiskveiðiári 6,44 krónur af hverju þorskígildiskílói. Sambærileg tala árið 2004 þegar veiðigjald var fyrst innheimt var 1,99 krónur.

Auk hækkunar á veiðigjaldi heimilaði Alþingi að allt að 15% af veiðigjaldi ársins rynni beint til sveitarfélaga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×