Viðskipti innlent

Veiking krónunnar áhyggjuefni - skilar sér með hækkandi vöruverði

Hafsteinn Hauksson. skrifar
Gengi krónunnar hefur veikst um sex prósent frá áramótum gagnvart helstu viðskiptamyntum landsins eftir að hafa styrkst allt síðasta ár. Hagfræðingur segir að þróunin sé áhyggjuefni.

Jón Bjarki Bentsson, hagfræðingur hjá Íslandsbanka, segir erfitt að segja til um orsök þessa. Hluti hennar sé að afgangur af vöruskiptum fer minnkandi þar sem innflutningur er að aukast, en það setur þrýsting á krónuna. Hann hefur áhyggjur af sigi krónunnar, meðal annars vegna ákvæða kjarasamninga um gengisþróunina.

"Það blæs nú ekki byrlega," segir Jón Bjarki. "Innflæði vegna þjónustuviðskipta ætti að vera með mesta móti núna, vegna þess að ferðamannatíminn er í hámarki. Ef aðstæður breytast ekki að öðru leyti með haustinu, þegar þetta flæði fer að sjatna, þá gæti krónan átt nokkuð erfitt uppdráttar."

Veiking krónunnar hefur áhrif á almenning í gegnum hærra verðlag, en það kom meðal annars fram í nýlegri rannsóknarritgerð seðlabankans.

"Ritgerðin sýndi fram á að áhrifin eru nokkuð sterk, og ósamhverf. Þegar gengið veikist, þá skilar það sér hratt út í verðlag og mjög sterkt. Það var sýnt fram á það í ritgerðinni að jafnvel þeir sem ákvarða verð á vörum og þjónustu, og ekki eru undir beinum áhrifum af genginu, elta hina í meira mæli en í öðrum löndum. Áhrif af gengissigi verða meiri og þrálátari hér á landi en víðast hvar annars staðar. Á móti virðist áhuginn á að láta verðlagið njóta þess þegar krónan styrkist vera öllu minni," segir Jón Bjarki að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×