Viðskipti innlent

Vilja hækka verð á nautakjöti þrátt fyrir minnkandi sölu þess

mynd úr safni
Kúabændur telja rétt og eðlilegt að hækka afurðaverð á næstunni. Mikil eftirspurn sé eftir nautakjöti og ekki sé fýsilegt að auka framleiðslu sem því nemi. Eigin tölur kúabænda sýna hinsvegar að sala á nautakjöti hefur minnkað milli ára.

Þetta kemur fram á vefsíðu RÚV. Þar segir að þá hafi aðföng til búrekstrar hækka verulega að undaförnu.

„Markaðsstaðan þannig í okkar tilfelli að eftirspurnin er meiri en framleiðslan um þessar mundir. Salan hefur verið jöfn og það virðast einfaldlega ekki vera nægileg framleiðsla í landinu til að anna henni. Það er trúlega ástæðan fyrir því að verðið er að þokast upp," segir Sigurður Loftsson formaður Landssambands kúabænda í samtali við RUV.

Þetta rímar ekki við upplýsingar á vefsíðu Landssambands kúabænda um nautakjötssölu og vitnað er til i frétt í Fréttablaðinu í dag. Þar segir að sala á nautakjöti í júní var 11,7 prósentum minni en á sama tíma í fyrra. Ársfjórðungssalan er 2,7 prósentum minni en í fyrra.

Verð á nautakjöti hefur hækkað um 20-25% undanfarið ár. Sigurður Loftsson segir hinsvegar að fram að því höfðu engar hækkanir átt sér stað um langt skeið á meðan kostnaður við framleiðslu jókst.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×