Viðskipti innlent

Reikna með að gengi krónuinnar veikist áfram

Gengi krónunnar heldur áfram að veikjast og reikna sérfræðingar með að sú þróun haldi líklega áfram.

Fjallað er um málið í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar kemur fram að gengisvísitalan hækkaði um tæpt hálft prósent í síðustu viku og endaði í rúmum 222 stigum. Gengisvísitalan er þar með komin á svipað stig og hún var um vorið í fyrra.

Nú er ferðamannastraumurinn til landsins með mesta móti og því ætti krónan að vera að styrkjast en ekki veikjast. Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur hjá Íslandsbanka sagði nýlega að erfitt væri að segja til um orsakir þessarar þróunar. Að hluta til fari afgangur af vöruskiptum  minnkandi þar sem innflutningur er að aukast, en það setur þrýsting á krónuna.

Í Markaðsfréttum segir að líklega haldi gengi krónunnar að veikjast áfram þannig að skráða gengið og gengið sem fæst í gjaldeyrisútboðum Seðlabankans muni nálgast hvort annað en sem stendur er munurinn þar á milli 30%. Síðasta útboðsgengið var rúmar 216 kr. fyrir evruna. Skráða gengið er hinsvegar rúmar 166 kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×