Viðskipti innlent

Skuldir sjávarútvegsins svipaðar og 2005

Skuldir sjávarútvegsins mældar í evrum eru nú svipaðar og þær voru árið 2005 en þær nema rúmlega 3 milljörðum evra eða rúmlega 500 milljörðum kr.

Þetta kemur fram í Markaðspunktum greiningar Arion banka þar sem rætt er um skuldastöðu sjávarútvegsins með tilliti til þeirra breytinga sem boðaðar hafa verið á núverandi kvótakerfi. Greiningin telur að stærri sjávarútvegsfyrirtækin séu mun betur í stakk búnar til að mæta þessum breytingum en þau smærri og meðalstóru.

„Aukin samþjöppun í sjávarútvegi hefur haft jákvæð áhrif á rekstur og framlegð greinarinnar. Þetta sést einna helst þegar skuldastaða staða stærri sjávarútvegsfyrirtækja er skoðuð miðað við hin fyrirtækin í greininni," segir í Markaðspunktunum.

„Hagkvæmni og velgengni í sjávarútvegi ræðst ekki aðeins af því hversu mikið auðlindin sjálf getur gefið af sér heldur einnig af fjármögnunarkostnaði sem er stærri fyrirtækjum fremur í hag. Af þessu er ljóst að möguleiki er á talsverðri stærðarhagkvæmni í fiskveiðum og vinnslu, en hagkvæmnin hefur þegar gert vart við sig.

Aukin nýliðun í greininni, sem stóra kvótafrumvarpið á að stuðla að, myndi auka fjölda smærri útgerða og draga úr aflaheimildum þeirra sem stærri eru. Spurningin er hvort verið sé að gera væntum nýliðum í útgerð greiða eða grikk með nýrri skipan fiskveiða, en staða smærri útgerða er í dag ekki svo öfundsverð."

Síðan segir að því sé ljóst að boðaðar hækkanir á veiðigjaldinu hafa misíþyngjandi áhrif á greinina eftir því hvort litið er til stærri eða minni fyrirtækja. Jafnframt má segja að niðurstaðan bendi til þess að minni útgerðir séu mun viðkvæmari en þær stærri fyrir þeim breytingum á kvótakerfinu sem snúa að áhrifum á skuldsetningu fyrirtækja og veðsetningu aflaheimilda.

Á árunum 2002-2008 jókst skuldsetning sjávarútvegs um tæplega 70% sem má að miklu leyti rekja til aukinnar veðsetningar vegna kvótakaupa.

„Frá hruni hefur hins vegar orðið skuldahjöðnun í greininni og í dag eru skuldir sjávarútvegsins í evrum svipaðar og árið 2005. Ýmsir þættir geta skýrt slíka skuldahjöðnun. Líklega hafa mörg fyrirtæki nýtt sér betra árferði og greitt niður skuldir sínar á sama tíma og minna hefur verið um nýjar lántökur. Jafnframt er ekki ólíklegt að afurðalán sem falla undir skammtímaskuldir hafi einnig minnkað vegna betra árferðis milli áranna 2008 og 2009. Einnig er ekki hægt að útiloka að hluti skulda hafi verið færðar niður og afskrifaðar," segir í Markaðspunktunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×