Viðskipti innlent

Reglur um kaupauka gætu veikt fjármálafyrirtækin

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það ríkir samkeppni um starfsfólk í fjármálageiranum. Mynd/ Getty.
Það ríkir samkeppni um starfsfólk í fjármálageiranum. Mynd/ Getty.
Fjármálaeftirlitið kynnti í gær reglur sem takmarka möguleika fjármálafyrirtækja á að greiða starfsmönnum kaupauka. Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, segir að kaupaukakerfin sem hafi verið við lýði hér á landi og annarsstaðar hafi alls ekki verið í lagi. Hann segir hins vegar að nýju reglurnar geti veikt stöðu fjármálafyrirtækja.

Guðjón bendir sem dæmi á að fjármálageirinn sé eina starfsgreinin sem er með þessar hömlur. Aðrar greinar sæki eftir starfsfólki í fjármálageirann. „Við vitum til dæmis að útflutningsgreinum hefur gengið vel vegna stöðu krónunnar og sækir í starfsfólk úr fjármálageiranum," segir Guðjón. Þá segir Guðjón mikilvægt að fjármálafyrirtæki geti líkt og fyrirtæki í öðrum starfsgreinum umbunað starfsfólki sínu með öðru en grunnlaunum.

Það er þrennt í reglum Fjármálaeftirlitsins sem Samtök fjármálafyrirtækja gera meginathugasemdir við. Í fyrsta lagi að kaupauki megi ekki vera hærri en 25% af grunnlaunum. Samtök fjármálafyrirtækja bentu á að lagagrunnur þessarar reglu renni út um næstu áramót og eðlilegt að reglur Fjármálaeftirlitsins tækju mið af því. Með þessari reglu sé líka gengið lengra en í nágrannaríkjum. Danir og fleiri hafi útfært reglur sem séu ekki eins stífar og þetta.

Þá gera reglurnar jafnframt ráð fyrir því að ekki sé hægt að greiða kaupauka þeim sem starfa við áhættustýringu, innri endurskoðun eða regluvörslu. „Við gerðum tillögu að breytingu sem ekki miða að svona útilokun," segir Guðjón. Hann bendir á að víða í Evrópu sé gert ráð fyrir að það sé hægt að greiða þessum aðilum umbun. Þeir séu ekki útilokaðir. „Enda getur það haft þau áhrif að aðilar, sem vinna þessi mikilvægu störf, sækist í að fara úr þessum deildum og komast í deildir eða önnur fyrirtæki þar sem þeir eigi möguleika á svona umbun.

Ekki var tekið tillit til þessara athugasemda Samtaka fjármálafyrirtækja.

Í þriðja lagi töldu Samtök fjármálafyrirtækja eðlilegt að gera ráð fyrir því að hægt væri að greiða starfsmönnum út kaupauka sem næmi því sem samsvaraði innan við einum mánaðalaunum. Guðjón segir að tekið hafi verið tillit til þessara athugasemda og heimilt sé að greiða kaupauka sem nemi allt að 10% af árslaunum. „Þetta getur verið mikilvægt fyrir hinn almenna starfsmann, þjónustufulltrúa eða hvað sem er," segir Guðjón.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×