Viðskipti innlent

Raungengi krónunnar lækkar áfram

Raungengi íslensku krónunnar heldur áfram  að lækka eins og það hefur raunar stöðugt gert á milli mánaða frá því í nóvember á síðasta ári.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að raungengið lækkaði um 0,2% á milli maí og júní síðastliðins á mælikvarða hlutfallslegs verðlags. Þessi lækkun er tilkomin vegna lækkunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu sem lækkaði um 0,6% í júní m.v. vísitölu meðalgengis. Verðlag hefur vegið eitthvað upp á móti áhrifum nafngengis á raungengi á þessu tímabili en það hækkaði um 0,5% m.v. vísitölu neysluverðs á sama tíma. Þetta má sjá í tölum sem Seðlabanki Íslands birti í gær.

Nú hefur raungengi krónunnar lækkað stöðugt frá nóvember á síðasta ári á ofangreindan mælikvarða og nemur lækkunin á því tímabili 5,4%. Þessa lækkun má rekja til lækkunar á nafngengi krónunnar á tímabilinu en það hefur lækkað um 6,9% frá því í nóvember m.v. vísitölu meðalgengis.

Af þessu má sjá að verðlag hér á landi hefur verið að hækka nokkuð umfram verðlag erlendis á þessum tíma og þar með vegið upp á móti áhrifum nafngengislækkunarinnar á raungengið. M.v. vísitölu neysluverðs hefur verðlag hækkað um 3,8% frá því í nóvember síðastliðnum

Í júní stóð raungengi krónunnar miðað við hlutfallslegt verðlag í 73,6 stigum sem er langt frá sínu langtímameðaltali, eða 24% undir meðaltali áranna 1980-2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×