Viðskipti innlent

Fyrstu íbúðahúsin í 14 ár rísa á Þórshöfn

Í síðustu viku gerðust þau tíðindi að tvö hús risu í einni svipan á Þórshöfn. Raðhúsin við Miðholt nr. 9 - 19 voru reist á örstuttum tíma í vikulokin og setja svip á nánasta umhverfi. Það munu vera fjórtán ár síðan síðast var reist íbúðarhús á Þórshöfn.

Þetta kemur fram á vefsíðu sveitarfélagsins. Þar segir að íbúðirnar eiga að vera tilbúnar um miðjan október og bæta vonandi úr miklum húsnæðisskorti sem hefur staðið Þórshöfn fyrir þrifum undanfarin misseri og ár. Um er að ræða sex 93m2 íbúðir sem BM Vallá byggir fyrir leigufélagið V Laugavegur.

Grafið var fyrir húsunum um páskana og hefur síðan hefur verið unnið að jarðvegsskiptum og öðrum frágangi í grunnunum.

Samkvæmt vefsíðunni er rífandi gangur á Þórshöfn þessa daganna. Þar segir að athygli hafi vakið hversu mörg störf eru auglýst til umsóknar á Þórshöfn. Sveitarfélagið auglýsti eftir skrifstofustjóra, leikskólastjóra, tónlistarkennara og hjúkrunarforstjóra fyrir dvalar- og hjúkrunarheimilið, og Ísfélag Vestmannaeyja á Þórshöfn auglýsti eftir rafvirkja. Umsóknarfrestur um nokkur þessara starfa er runninn út og ráðningarferli í gangi.

En fleiri atvinnutækifæri bjóðast. Nýlega var auglýst eftir tilboðum í skólamáltíðir á Þórshöfn og leitað er að fólki í alþrif á leikskólanum. Einnig hefur veitingastaðurinn Eyrin verið auglýst til sölu. Staðurinn er í fullum rekstri og selst með húsnæði, öllum búnaði og tækjum. Megináhersla er á sumarmánuðina en opið er allt árið. Með nýjum þjóðvegi til Þórshafnar eru mörg tækifæri í ferðaþjónustu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×