Viðskipti innlent

Íslandsbanki Fjármögnun verður Ergo

Íslandsbanki Fjármögnun tekur á morgun upp nafnið Ergo, fjármögnunarþjónusta Íslandsbanka.  Ergo sérhæfir sig í fjármögnun bifreiða fyrir einstaklinga, og atvinnutækja og atvinnuhúsnæðis fyrir rekstraraðila.

Í tilkynningu segir að þessi breyting endurspeglar stefnu Íslandsbanka um aðgreiningu á markaði og nýjungar á sviði fjármögnunarþjónustu bankans. Nafnbreytingin mun ekki hafa áhrif á skuldbindingar viðskiptavina við Ergo og mun fjármögnunarþjónustan áfram heyra undir viðskiptabankasvið bankans. Nafnið hefur verið í eigu Íslandsbanka frá árinu 2000 og var áður heiti á verðbréfavef bankans.

Jón Hannes Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ergo, en hann tekur við af Ingvari Stefánssyni sem tekur við starfi framkvæmdarstjóra fjármála hjá Orkuveitu Reykjavíkur.  Jón Hannes er 43 ára gamall og hefur starfað hjá Íslandsbanka Fjármögnun frá árinu 2004, síðast sem forstöðumaður fyrirtækjasviðs. Hann er með B.Sc. gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík.  Hjá Ergo starfa nú 45 starfsmenn.

Samhliða breyttu nafni mun Ergo kynna ýmsar nýjungar í starfsemi sinni.  Ergo mun bjóða sérkjör á bílalánum til kaupa á orkusparandi bifreiðum og hvetja þannig viðskiptavini til að velja „græna“ kosti í bifreiðakaupum. Þá er í bígerð verkefni í samstarfi við Orkusetur þar sem viðskiptavinir munu geta skoðað eyðslu og útblástur bifreiða sinna á vef Ergo, borið saman eyðslu milli tegunda og margt fleira sem skiptir máli við bifreiðaeign. Það verkefni verður kynnt síðar.

Í kjölfarið á breyttu nafni mun Ergo flytja starfsemi sína í nýja fjármálamiðstöð Íslandsbanka að Suðurlandsbraut 14 þann 13. júlí næstkomandi.

„Þessi breyting er liður í frekari aðgreiningu fjármögnunarþjónustu bankans á markaði. Ergo mun bjóða uppá nýjungar á sviði fjármögnunar og ætlar sér áfram að vera leiðandi fyrirtæki á því sviði hér á landi. Starfsmenn Ergo hafa mikla reynslu af fjármögnunarþjónustu við fyrirtæki og einstaklinga og munu leggja sig fram við að bjóða viðskiptavinum sínum framúrskarandi þjónustu,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×