Viðskipti innlent

Exeter-máli áfrýjað til Hæstaréttar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Ragnar Z. Guðjónsson, til vinstri, og Jón Þorsteinn Jónsson, ásamt verjanda sínum, í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ragnar Z. Guðjónsson, til vinstri, og Jón Þorsteinn Jónsson, ásamt verjanda sínum, í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Ríkissaksóknari hefur tekið ákvörðun um að áfrýja niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í Exeter-málinu til Hæstaréttar.

Þeir Ragnar Zophonías Guðjónsson, fyrrverandi sparisjóðsstjóri Byrs, Jón Þorsteinn Jónsson, fyrrverandi stjórnarformaður Byrs og Styrmir Þór Bragason, fyrrverandi forstjóri MP banka voru sýknaðir af umboðssvikum í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku í svokölluðu Exeter-máli. Einn dómari, Ragnheiður Harðardóttir, skilaði sératkvæði og vildi sakfella þá Jón Þorstein og Ragnar fyrir umboðssvik, en sýkna Styrmi Þór.

Ríkissaksóknari hefur nú tekið ákvörðun um að áfrýja niðurstöðu dómsins til Hæstaréttar. Sigríður Elsa Kjartansdóttir, settur vararíkissaksóknari, staðfesti þetta við fréttastofu í morgun. Hún sagði að ákvörðun um áfrýjun hefði verið tekin síðdegis í gær.

Réttarhlé er nú hjá Hæstarétti þangað til í september næstkomandi. Aðspurð sagði Sigríður Elsa að embættið gæti ekki svarað því hvenær málið yrði tekið fyrir hjá réttinum. Það réðist væntanlega af dagskránni. Síðan þyrfti að kalla eftir gögnum frá Héraðsdómi og hvenær málið yrði tekið fyrir réðist m.a að því hversu langan tíma tæki að undirbúa ágrip fyrir Hæstarétt, skjöl og önnur gögn. thorbjorn@stod2.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×