Viðskipti innlent

Ólíklegt að metárið í fyrra verði slegið hvað vöruskiptin varðar

Greining Íslandsbanka telur ólíklegt að metárið í fyrra, hvað vöruskiptaafgang varðar, verði jafnað þetta árið. Afgangur af vöruskiptum nam 120 milljörðum kr. árið 2010, jafngildi u.þ.b. 8% af vergri landsframleiðslu (VLF) ársins og hafði þá aldrei verið meiri, hvort sem í krónum er talið eða miðað við hlutfall af VLF.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningarinnar þar sem fjallað er um nýjar tölur Hagstofunnar um vöruskiptin á fyrstu fimm mánuðum ársins. Þau voru 10,6 milljörðum króna lakari en á sama tímabili á síðasta ári. Afgangurinn á fyrstu fimm mánuðum í ár nam 41,0 milljarði kr. en á sama tíma árið áður voru vöruskiptin hagstæð um 51,6 milljarða kr. á sama gengi

Í Morgunkorninu segir að raunar muni útflutningur sjávarafurða væntanlega aukast nokkuð frá og með haustinu í ljósi 10% aukningar á leyfilegum heildarafla þorsks og 30% aukningar á heildarafla karfa á næsta fiskveiðiári, sem tilkynnt var um í gær. Meginhluti þeirrar aukningar mun hins vegar koma fram á næsta almanaksári, en fiskveiðiárið stendur frá septemberbyrjun til ágústloka.

„Vandséð er hvaðan önnur aukning á vöruútflutningi á að koma næsta kastið, enda hefur framleiðslugeta stóriðju ekki aukist undanfarin ár og nokkuð í að svo verði, og annar iðnaður hefur takmarkaða burði til mikils vaxtar í bili. Hins vegar bendir flest til þess að aukning innflutnings á milli ára verði áfram álíka mikil og verið hefur það sem af er árinu,“ segir í Morgunkorninu.

„Þess má geta að í þjóðhagsspá Seðlabankans sem birt var í apríl síðastliðnum var gert ráð fyrir að afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum við útlönd yrði 10,5% af VFL á yfirstandandi ári, sem er sama hlutfall og í fyrra. Í ljósi ofangreindra talna, og með hliðsjón af því að vísbendingar eru um að afgangur af þjónustuviðskiptum verði einnig minni í ár en í fyrra, ekki síst vegna aukinnar ferðagleði landsmanna, teljum við líklegt að afgangurinn verði talsvert minni. Gæti þetta hlutfall að mati okkar numið 8-9% af VLF þetta árið, en minni afgangur af vöru- og þjónustuviðskiptum mun vitaskuld leiða til samsvarandi samdráttar í innflæði gjaldeyris vegna slíkra viðskipta.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×