Viðskipti innlent

Ekki góðs viti að krónan veikist á háannatímanum

Það er ekki talið góðs viti að gengi krónunnar veikist á sama tíma og gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna er með mesta móti.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að á sama tíma og evran var að veikjast gagnvart flestum myntum í gær lækkaði gengi krónunnar gagnvart evrunni.

„Þó var ekki um mikla hreyfingu að ræða, en að okkar mati er þetta ekki góðs viti að krónan sé að veikjast á sama tíma og gjaldeyrisinnflæði vegna ferðamanna er með sem mesta móti. Fór evran úr 165,19 krónum í 165,65 krónur í gær,“ segir í Morgunkorninu.

„Á sama tíma lækkaði EUR/USD krossinn úr 1,4422 í 1,4316 og hefur evran jafnframt haldið áfram að veikjast gagnvart flestum myntum nú það sem af er morgni.“

Þessi þróun á gengi krónunnar í gær leiddi til þess að gengisvísitala krónunnar hækkaði úr 217,61 stig upp í 218,51. Þrátt fyrir að þróun á gengi krónunnar gagnvart evru hafi verið aðeins jákvæðari nú í morgunsárið en í gær þá hefur gengisvísitalan haldið áfram að hækka og stendur hún í 218,68 stigum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×