Viðskipti innlent

Arnar Gauti og Jóhanna Pálsdóttir ráðin til Elite

Arnar Gauti Sverrisson og Jóhanna Pálsdóttir hafa verið ráðinn til Elite á Íslandi. Arnar sem listrænn stjórnandi og Jóhanna sem framkvæmdastjóri.   Þau taka við af Ingibjörgu Finnbogadóttur og Tinnu Aðalbjörnsdóttur sem hverfa til annarra verkefna. 

Í tilkynningu segir að Elite á Íslandi er umboðsskrifstofa fyrir íslenskar fyrirsætur og er hluti af alþjóðlegu neti 37 umboðs- og bókunarskrifstofa í 5 heimsálfum.

Arnar Gauti er vel þekktur úr tískuheiminum þar sem hann hefur starfað síðustu 20 ár sem verslunarmaður og stílisti og hverfur nú frá sem tískuritstjóri tímaritsins Mannlíf.

Jóhanna Pálsdóttir hefur yfir tíu ára reynslu af markaðsmálum hérlendis sem og erlendis. Jóhanna starfaði meðal annars sem markaðsstjóri fyrir Scottish Media Group og Capital Radio í Bretlandi og hefur undanfarin 3 ár gegnt stöðu markaðsstjóra hjá Íslenska dansflokknum.

„Við erum gífurlega spennt að taka við Elite á Íslandi og vinna með einu stærsta nafninu í tískuheiminun „ segir Arnar Gauti og bætir við „við sjáum fyrir okkur mikil sóknarfæri á markaðnum hér heima sem og erlendis“ 

Aukið fjármagn hefur verið sett í fyrirtækið til að takast á við þau fjölmörgu verkefni sem eru framundan.  Arnar og Jóhanna munu einnig taka við stjórn Reykjavík Fashion Festival, en hátíðin hefur vaxið og dafnað á milli ára og verið ómetanleg kynning fyrir íslenska fatahönnun og hönnuði. Yfir 100 erlendir gestir úr tískubransanum komu t.d. á síðustu hátíð.“

Elite mun sem áður fyrr halda árlega  Elite Model Look keppni á Íslandi og mun sigurvegarinn fá þátttökurétt í Elite Model Look World keppninni viðkomandi ár.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×