Viðskipti innlent

Seðlabankinn í mál gegn Samkeppniseftirlitinu

Seðlabanki Íslands vill ekki afhenda gögn um útlán bankanna og ætlar að fara með deilumál við Samkeppniseftirlitið fyrir dómstóla. Áfallnar dagsektir vegna málsins nema nú þegar yfir 10 milljónum króna.

Þetta kom fram í hádegisfréttum RUV. Þar sagði að Samkeppniseftirlitið hafi rannsakað samkeppnisbrot á bankamarkaði og óskaði eftir gögnum um útlán bankanna sem þeir afhenda Seðlabankanum. Seðlabankinn hafnaði hinsvegar beiðninni á þeim forsendum að trúnaðar- og þagnarskylda hvíldi á bankanum. Hann fengi upplýsingarnar til hagskýrslugerðar í samræmi við lög um hana og væri því óheimilt að láta þær af hendi.

Samkeppniseftirlitið vísar hinsvegar í samkeppnislög sem kveða á um rétt eftirlitsins til að krefjast upplýsinga frá öðrum stjórnvöldum óháð þagnarskyldu þeirra. Samkeppnisyfirvöld lögðu því dagsektir á Seðlabankann, eina og hálfa milljón á dag.

Seðlabankinn skaut málinu til áfrýjunarnefndar úrskurðarmála, sem staðfesti ákvörðun Samkeppniseftirlitsins. 1. júlí byrjuðu sektirnar að hrannast upp og nema nú yfir 10 milljónum króna. Dagsektir reiknast þar til málinu lýkur fyrir dómstólum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×