Viðskipti innlent

Eignir brugghússins Mjaðar kyrrsettar

Eignir brugghússins Mjaðar í Stykkishólmi, sem framleiðir bjórtegundirnar Jökul og Skriðjökul, hafa verið kyrrsettar af sýslumanni. RUV segir frá þessu og vitnar í Skessuhorn.

Á vefsíðu RUV segir að engin starfsemi hafi farið fram í húsinu í þrjár vikur. Starfsmenn hafa ekki fengið laun undanfarna tvo mánuði, en þeim var sagt upp við eigendaskipti og uppstokkun í vor. Þar sem fyrirtækið er ekki enn formlega gjaldþrota eiga þeir ekki rétt á greiðslum úr Ábyrgðarsjóði launa, og vegna formsatriða fá þeir ekki heldur atvinnuleysisbætur.

Nýir eigendur brugghússins brugguðu aldrei bjór, en tæmdu lager verksmiðjunnar samkvæmt heimildum fréttastofu, og seldu á bar í Reykjavík í sinni eigu. Þessu hafnar talsmaður nýrra eigenda, en vildi að öðru leyti ekki tjá sig um málið að svo stöddu, að því er segir á RUV.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×