Viðskipti innlent

Spáir áframhaldandi afgangi af vöruskiptunum

Hagstofan segir að horfur eru á áframhaldandi afgangi af vöruskiptajöfnuði á næstu árum. Samkvætm þjóðhagsspá Hagstofunnar er reiknað er með að útflutningur aukist um 2,1% árið 2011.

„Ráðgjöf Hafrannsóknarstofnunar bendir til þess að nokkur aukning verði í kvótaúthlutun á þorski og virðast góðar líkur á auknum loðnuveiðikvóta. Reiknað er með auknum útflutningi sjávarafurða á þessu ári og því næsta,“ segir í spánni.

"Hins vegar er áætlað að álútflutningur dragist lítillega saman á þessu ári vegna tímabundinna aðstæðna. Gert er ráð fyrir áframhaldandi vexti í öðrum útflutningi en frá stóriðju og sjávarútvegi, þar ber helst að nefna góðar horfur í ferðaþjónustu.“

Hagstofan segir að árið 2012 er áætlað að útflutningur aukist um 3,3% sem má að mestu rekja til aukins útflutnings sjávarafurða og aukningar í þjónustuútflutningi í ljósi lágs raungengis. Árið 2013 er gert ráð fyrir 2,8% vexti útflutnings en þá mun framleiðsluaukning í Straumsvík fara að skila sér í auknum útflutningi auk þess sem kísilverksmiðjan í Helguvík verður komin í gang.

Búist er við að innflutningur aukist um 3,8% árið 2011. Árið 2012 er reiknað með 4,9% vexti innflutnings en aukinn innflutningur þessi ár endurspeglar batann í einkaneyslu með innflutningi á neysluvörum og auknum ferðalögum erlendis og vexti fjárfestingar. Spáð er áframhaldandi vexti innflutnings út spátímann það er til 2016.

„Reiknað er með að vöruskiptaafgangur dragist saman á spátímanum þar sem útflutningur nær ekki að halda í við aukinn vöxt innlendrar eftirspurnar. Árið 2010 var 10,6% afgangur af vöruskiptajöfnuði en reiknað er með að hann verði um 9– 10% árin 2011 og 2012 en verði kominn í 7,9% árið 2013.

Þá er áætlað að viðskiptajöfnuður verði neikvæður á spátímanum vegna halla á jöfnuði þáttatekna en þáttatekjurnar innihalda vaxtagreiðslur banka í slitameðferð en gera má ráð fyrir að verulegur hluti þeirra verði afskrifaður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×