Viðskipti innlent

Telur ólíklegt að forsendur kjarasamninga standist

Hagstofan telur ólíklegt að forsendur nýgerðra kjarasamninga standist. Þetta kemur fram í nýrri þjóðhagsspá Hagstofunnar.

Í spánni segir að samningar SA og ASÍ eru uppsegjanlegir í ársbyrjun 2012 og 2013 ef forsendur um kaupmátt, gengi íslensku krónunnar og verðlag ganga ekki eftir. Telja verður harla ólíklegt að öll skilyrðin haldi. Samningar opinberra starfsmanna verða einnig uppsegjanlegir eða til endurskoðunar eftir niðurstöðu forsendunefndar SA og ASÍ.

Spáin gerir ráð fyrir að þó eitthvað þurfi að endurskoða nýgerða kjarasamninga á næstu árum, þá muni þeir halda að mestu leyti og kaupmáttur launa aukast á spátímanum.

Atvinnuleysi er enn mjög mikið, en spáin gerir ráð fyrir að hagvöxtur verði nægilegur til að það lækki smátt og smátt allan spátímann. Nú um mitt ár 2011 er atvinnuleysið talsvert minna en á fyrsta ársfjórðungi en það er að hluta til að vegna  árstíðarbundins samdráttar í atvinnuleysi.

Engu að síður er atvinnuleysið á fyrri helmingi ársins 2011 minna en það var á sama tíma árið 2010. Spáin gerir ráð fyrir að atvinnuleysið verði 7,2% í ár, 6,0% árið 2012 og 5,4% árið 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×