Viðskipti innlent

Sérfræðingar spá yfir 4% verðbólgu í júní

Greiningar Arion banka og Íslandsbanka gera báðar ráð fyrir því að verðbólgan muni mælast yfir 4% í þessum mánuði. Nokkur munur er á spám þeirra, greining Íslandsbanka gerir ráð fyrir að verðbólgan fari í 4,1% en Arion banka að hún fari í 4,3%. Verðbólgan mældist 3,4% í síðasta mánuði.

Í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka segir að það sé  einna helst fernt sem veldur hækkun vísitölunnar á milli maí og júní. Er það hækkun húsnæðisverðs, veiking krónu að undanförnu, kjarasamningsbundnar launahækkanir og hrávöruverðshækkanir.

Í Markaðspunktum greiningar Arion banka segir að greiningin geri ráð fyrir að fyrstu kostnaðarhækkanir vegna kjarasamninga komi fram í júní. „Þá er einnig líklegt að kaupmenn nýti tækifærið og ýti öðrum kostnaðarhækkunum út í verðlagið m.a. vegna veikingar krónunnar og hrávöruverðshækkana úti í heimi. Umtalsverð hækkun mældist á verði íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu í maí sl. – því má búast við sterkum áhrifum vegna húsnæðisliðar í næstu verðbólgumælingu Hagstofunnar,“ segir í Markaðspunktunum.

Síðan segir greining Arion banka að ársverðbólga færist sífellt fjær verðbólgumarkmiði Seðlabankans og útlit er fyrir að verðbólgumarkmiði verði ekki náð á komandi mánuðum.

„Talsverð kostnaðarverðbólga er framundan að okkar mati þar sem áhrif vegna launahækkana, hækkandi hrávöruverðs og veikingar krónunnar eiga eftir að koma fram. Þá er fasteignaverð farið að hækka á ný og mun því húsnæðisliðurinn halda áfram að hafa áhrif til hækkunar á verðbólgutölum. Gangi bráðabirgðaspá okkar eftir verður tólf mánaða verðbólga komin í 5,2% í september,“ segir í Markaðspunktunum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×