Viðskipti innlent

Hrein eign heimilanna losar 3.700 milljarða

Hrein eign heimilanna í landinu losar 240% af landsframleiðslu eða 3.700 milljarða kr. Er þetta umtalsverð eign sem stendur þrátt fyrir hrun bankakerfisins og þá kreppu sem íslensk samfélag hefur tekist á við á undanförnum árum með tilheyrandi lækkun á verði eigna og hækkun á verðtryggðum og gengisbundnum lánum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að meirihluti sparnaðar heimilanna er bundið í íbúðarhúsnæði. Því til viðbótar eru heimilin með eignir sínar í lífeyrissjóðum, innlánum, verðbréfum og bifreiðum svo það helsta sé talið.

Samkvæmt nýju fasteignamati er verðmæti íbúðahúsnæðis 2.850 milljarðar kr. Hrein eign lífeyrissjóðanna nam 1.984 milljörðum kr. í lok apríl síðastliðinn og eignir heimilanna á innlánsreikningum stóðu í 629 milljörðum kr. á sama tíma. Samanlagt eiga heimilin því um 5.463 milljarða kr. í íbúðarhúsnæði, lífeyrissjóðum og innlánum hjá bönkunum.

Þetta eru um 43 milljónir kr. á hvert heimili í landinu eða um 353% af landsframleiðslu. Við þetta bætist síðan bifreiðaeign og bein eign í verbréfum en tölur yfir það eru ekki tiltækar.

Á móti þessum eignum eru skuldir heimilanna umtalsverðar eða um 110% af landsframleiðslu samkvæmt upplýsingum frá Seðlabanka Íslands. Er skuldahlutfall þetta nokkuð hátt í alþjóðlegum samanburði en skýrist það m.a. af því að hlutfall heimila í eigin húsnæði hér á landi er með því hæsta sem gerist í heiminum.

Samkvæmt hagtölum Seðlabankans skulduðu heimilin innlánsstofnunum 517 milljarða kr. í lok apríl síðastliðin og eru útlánin þá metin á því virði sem Arion banki, Íslandsbanki og NBI keyptu lánasöfnin á af fyrirrennurum sínum. Þá skulduðu heimilin öðrum lánastofnunum 691 milljarða kr. í lok apríl en með í þessari tölu eru skuldir heimilanna við Íbúðalánasjóð. Skuld heimilanna við lífeyrissjóðina var síðan 174 milljörðum kr. í lok apríl. Samanlagt skulda heimilin því þessum aðilum 1.382 milljarða kr. Við þetta má síðan bæta skuld heimilanna við Lánasjóð íslenskra námsmanna og tryggingafélög. 





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×