Viðskipti innlent

EFTA dómstólinn dæmir gegn Íslandi

MYND/Vilhelm
Í dómi sem kveðinn var upp í dag komst EFTA-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Ísland hafi brotið gegn skuldbindingum sínum samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins um störf erlendra starfsmanna sem vinna tímabundið á vegum erlendra fyrirtækja á Íslandi.

Í tilkynningu frá dómstólnum segir að íslensk lög mæla fyrir um að erlend fyrirtæki, sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands, skuli greiða útsendum starfsmönnum föst laun í veikinda- og slysatilvikum. Enn fremur mæla íslensk lög fyrir um að fyrirtæki skuli kaupa slysatryggingu fyrir útsenda starfsmenn.

EFTA-dómstóllinn taldi að 1. mgr. 3. gr. tilskipunarinnar hefði að geyma tæmandi upptalningu á þeim ráðningarskilmálum og atvinnuskilyrðum sem EES-ríki gæti gert fyrirtækjum, með staðfestu í öðru EES-ríki, að virða þegar þau sendu starfsmenn til starfa á yfirráðasvæði þess. Í þeirri upptalningu væri að finna „lágmarkslaun ásamt yfirvinnukaupi".

Taldi dómstóllinn að greiðslur launa í veikinda- og slysatilvikum samkvæmt íslenskum lögum gætu ekki fallið undir hugtakið „lágmarkslaun" í skilningi tilskipunarinnar. Vísaði dómstóllinn þá til þess að íslensk lög gerðu ráð fyrir að laun í veikinda- og slysatilvikum miðuðust við launagreiðslur starfsmanns samkvæmt ráðningarsamningi en ekki við lágmarkslaun, þ.e. fasta fjárhæð lágmarkslauna í veikinda- og slysatilvikum, eða fjárhæð byggða á útreikningi sem tæki mið af lágmarkslaunum.

Dómstóllinn taldi einnig að ákvæði íslenskra laga um skyldubundna slysatryggingu varðaði starfskjör og félli þar með undir 3. grein tilskipunarinnar. Þar sem skyldubundin slysatrygging væri ekki talin meðal þeirra atriða sem EES-ríki gætu gert fyrirtækjum með staðfestu í öðrum aðildarríkjum að virða samkvæmt 1. mgr. 3. greinar tilskipunarinnar þá yrði að telja slíka skyldu fara í bága við tilskipunina.

Að lokum komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að ekki væri unnt að réttlæta íslenskar reglur um rétt starfsmanna til launa í veikinda- og slysatilvikum á grundvelli allsherjarreglu þar sem Ísland hefði ekki sýnt fram á að þær væru nauðsynlegar til að mæta raunverulegri og alvarlegri ógn við grundvallarhagsmuni íslensks samfélags.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×