Viðskipti innlent

Samstarfsvettvangur jarðvarmaklasans stofnaður

Dr. Michael Porter.
Dr. Michael Porter.
Arion banki í samstarfi við Gekon hélt fjölsóttan fund í morgun í höfuðstöðvum bankans. Dr. Michael Porter, prófessor við Harvard Business School og einn helsti fræðimaður heims á sviði stefnumótunar og samkeppnishæfni þjóða, var heiðursgestur fundarins og ávarpaði gesti.

Í tilkynningu frá bankanum segir að tilfefni fundarins hafi annars vegar verið útgáfa skýrslunnar „Virðisauki í jarðvarma" sem fjallar um greiningu og samstarfsmótun íslenska jarðvarmaklasans og hins vegar stofnun formlegs samstarfsvettvangs klasans. Arion banki er aðalbakhjarl verkefnisins.

„Skýrslan Virðisauki í jarðvarma byggir m.a. á kortlagningu klasans sem kynnt var á ráðstefnunni Iceland Geothermal 2010 þann 1. nóvember sl. þar sem Dr. Porter var aðalræðumaður. Höfundar skýrslunnar eru Hákon Gunnarsson og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir hjá Gekon en Dr. Porter og samstarsfmaður hans Dr. Christian Ketels rita formála," segir ennfremur.

Unnið að tíu skilgreindum verkefnum

Þá segir að í morgun hafi fyrirtæki og hagsmunaaðilar staðfest stofnun formlegs samstarfs innan jarðvarmaklasans, þar sem unnið verður að 10 skilgreindum samstarfsverkefnum til frekari framþróunar og vaxtar íslenska jarðvarmaklasans. „Alls komu um 60 ólíkir aðilar að verkefninu um þróun á samstarfi hins íslenska jarðvarmaklasa. Markmið samstarfsins er aukin samkeppnishæfni klasans og leiðarljós þess verður skýrslan Virðisauki í jarðvarma. Stofnaðilar eru alls um 20 og meðal þeirra eru Landsvirkjun, HS Orka, GEORG, Mannvit, Íslandsbanki, Samtök iðnaðarins, KPMG og Arion banki."

Góð mæting var á fundinum í morgun.
Á fundinum í morgun tóku til máls þau Stefán Pétursson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Arion banka, Hákon Gunnarsson og Þóra Margrét Þorgeirsdóttir frá Gekon, Eyjólfur Árni Rafnsson, forstjóri Mannvits og Dr. Michael Porter.

Ágrip úr skýrslunni:

Hugtakið klasi er skilgreint sem landfræðileg þyrping fyrirtækja og stofnana á ákveðnu sviði, sem eiga sameiginlega hagsmuni og stuðningsnet. Með klasa skapast ákveðin heild sem er mun sterkari en einstaka aðili hver í sínu lagi.

Árið 2010 gerðu Dr. Michael Porter og Dr. Christian Ketels greiningu á hinum íslenska jarðvarmaklasa í samvinnu við Gekon. Hátt í 60 ólíkir hagsmunaaðilar tóku þátt í verkefninu. Niðurstöður sýna að Ísland er frá náttúrunnar hendi einstaklega vel úr garði gert hvað varðar aðgang að gæða auðlind. Hátt hlutfall jarðvarmaorku af heildarfrumorkunotkun landsins er einstakt í heiminum.

Hinn íslenski jarðvarmaklasi er auðlindaklasi og jarðvarmaauðlindin er þess eðlis að ekki er hægt að flytja hana út með beinum hætti. Helstu vaxtatækifæri klasans felast því í að laða að orkuháða starfsemi til landsins (bæði fyrir beina og óbeina nýtingu), lagningu sæstrengs til Evrópu og útflutningi á jarðvarmaþekkingu. Aðilar innan jarðvarmaklasans verða að móta stefnu og aðgerðaráætlun hafi þeir á annað borð burði og áhuga á að nýta einstök tækifæri innan alþjóðlega jarðvarmageirans. Í kjölfar greiningarvinnunnar var unnið að mótun formlegs samstarfs innan íslenska jarðvarmaklasans. Vinnunni var stýrt af fagráði leiðandi aðila innan klasans.

Í kjölfar vinnustofu klasaaðila í maí 2011 skilgreindi fagráðið tíu samstarfsverkefni sem skipa grundvöll fyrir formlegt samstarf innan klasans, til frekari framþróunar og vaxtar. Markmið samstarfsins er aukin samkeppnishæfni klasans og leiðarljós þess Virðisauki í jarðvarma. Verkefnin verða unnin með markvissum hætti á tímabilinu júlí 2011 til desember 2012 þar sem aðferðum klasastjórnunar verður beitt. Í lok árs 2012 verður árangur verkefnanna metinn og ákvörðun tekin um þróun samstarfsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×