Viðskipti innlent

Arion banki endurreiknar 2000 ólögmæt lán

Arion Banki.
Arion Banki.
Arion Banki hyggst endurreikna öll þau lán sem kveða á um sömu efnisatriði og Hæstiréttur hefur í nýlegum dómum sínum talið ólögmæt. Um tvö þúsund lán er að ræða samkvæmt tilkynningu frá bankanum. Arion banki stefnir að því að ljúka endurútreikningi í október en niðurstaðan verður kynnt lánþegum eins fljótt og auðið er.

Fram að þeim tíma býður Arion banki viðskiptavinum sínum að greiða áfram af umræddum lánum með óbreyttum hætti eða að greiða 10.000 kr. af hverri milljón af upphaflegum höfuðstól.

Samkvæmt dómum Hæstaréttar virðast lán með svokölluðu „jafnvirðisorðalagi“, þar sem útgreiðsla láns og greiðsla afborgana sem og vaxta er í íslenskum krónum, vera gengistryggð lán í íslenskum krónum og þar með að hluta til ólögmæt. Hins vegar teljast lán, þar sem fjárhæð hinnar erlendu myntar er tiltekin og útgreiðsla lánsfjárhæðar og greiðsla afborgana og vaxta var gerð í erlendri mynt, vera lán í erlendri mynt og þar með lögmæt erlend lán.

Óvissa ríkir um lögmæti annarra lána þar sem orðalag lánasamningsins og framkvæmd lánveitingarinnar er með öðrum hætti. Arion banki mun áfram leitast við að greiða úr málum hlutaðeigandi einstaklinga og fyrirtækja. Um er að ræða á bilinu tvö til þrjú hundruð lán. Arion banki mun beita sér fyrir því að eyða óvissu varðandi lögmæti þeirra lána og leggja sitt af mörkum til að hraða málum í gegnum dómskerfið eins og frekast er unnt.

Starfsmenn Arion banka munu á næstunni setja sig í samband við forsvarsmenn þeirra fyrirtækja og þá einstaklinga sem kost eiga á endurútreikningi lána sinna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×