Viðskipti innlent

Verulega dregur úr hagnaði OR milli ára

Hagnaður Orkuveitu Reykjavíkur (OR) á fyrsta ársfjórðungi ársins nam 2.318 milljónum króna en var 7.187 milljónir króna á fyrsta fjórðungi í fyrra þegar gengisþróun var hagfelldari en nú.

Þetta kemur fram í yfirliti um reksturinn. Þar segir að regluleg starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur (OR) skilaði betri afkomu fyrstu þrjá mánuði þessa árs en í fyrra. Það má rekja til aukinna tekna og aðhalds í rekstri. Handbært fé frá rekstrinum nam 3,9 milljörðum króna og hækkaði um tæpar 983 milljónir kr.

Þrátt fyrir óhagstæða gengisþróun á fyrsta ársfjórðungi 2011 voru fjármagnsliðir jákvæðir og ræðst það af mikilli hækkun á álverði á tímabilinu sem eykur bókfært verðmæti raforkusölusamninga OR til stórnotenda.

Árshlutareikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrir tímabilið 1. janúar til 31. mars 2011 var samþykktur og áritaður af stjórn og forstjóra á fundi stjórnar í dag.

.

Árshlutareikningurinn er gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla.

„Orkuveita Reykjavíkur hefur breytt áherslum í rekstri og einbeitir sér nú að kjarnahlutverki sínu, veitustarfseminni. Það eru jákvæð teikn á lofti í rekstri kjarnastarfseminnar bæði hvað varðar tekjur og gjöld, en við þurfum að taka betur á við að ná niður rekstrarkostnaði,“ segir Bjarni Bjarnason, forstjóri OR í yfirlitinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×