Viðskipti innlent

Sjóvá skilaði 811 milljóna hagnaði í fyrra

Sjóvá skilaði 811 milljóna króna hagnaði á árinu 2010. Arðsemi eigin fjár var rúm 6,8% á tímabilinu. Eigið fé Sjóvár nam 12,3 milljörðum króna í lok árs og var eiginfjárhlutfallið 33,6%.

Þetta kemur fram í tilkynningu um uppgjörið. Þar segir að heildartekjur félagsins á árinu námu 12,3 milljörðum, þar af voru iðgjöld 10,9 milljarðar og afkoma af fjármagnsliðum 1,3 milljarðar.

Sjóvá var í söluferli á árinu 2010 sem lauk án niðurstöðu um sölu á tryggingafélaginu. Engu að síður leiddu viðræður á síðari stigum til aðkomu fjárfestingahóps sem keypti 51.4 % hlutafjár. Fyrirhuguð kaup bíða nú samþykktar FME.

Stjórn Sjóvár telur afkomu rekstrarins viðunandi miðað við núverandi aðstæður. Félagið stendur traustum fótum og horfur í rekstri eru góðar. Framundan eru spennandi verkefni á sviði fjölbreyttrar þjónustu við fjölskyldur og fyrirtæki sem velja Sjóvá sem sinn bakhjarl í tryggingamálum. Stjórn Sjóvár er þakklát fyrir það traust sem viðskiptavinir sýna félaginu, að því er segir í tilkynningunni.

Stjórn Sjóvá var endurkjörin á aðalfundi félagsins nýlega. Hana skipa Frosti Bergsson stjórnarformaður, Haukur C. Benediktsson varformaður, Erna Gísladóttir, Heimir V. Hannesson og Þórhildur Helgadóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×