Viðskipti innlent

Bannað að framselja varanlegar aflaheimildir

Í frumvarpi því um breytingar á kvótakerfinu sem sent verður þingflokkum ríkisstjórnarflokkanna er alfarið bannað að framselja varanlegar aflaheimildir. Áfram verður hinsvegar hægt að framselja leigukvóta, það er kvóta til eins árs.

Aðrar helstu breytingar, samkvæmt heimildum fréttastofu, eru að útgerðir leigi út aflaheimildir til 15 ára í senn með möguleika á að endurnýja leigusamningana þegar tímabilið er hálfnað.

Þá er gert ráð fyrir að veiðigjaldið hækki um helming og fari í 5 milljarða kr. á ári. Af þessum 5 milljörðum er gert ráð fyrir að sjávarútvegsbyggðir um allt landið fái 30% eða 1,5 milljarð kr. í sinn hlut.

Sérstök ákvæði eru um svokallaða potta í frumvarpinu. Þannig er gert ráð fyrir að 8% kvótans fari í byggðapott eða kvóta sem úthlutað er til sjávarplássa á landsbyggðinni. Hlutfall þessara potta verði svo aukið í 15% á næstu fimmtán árum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×