Viðskipti innlent

Viðsnúningur hjá Kópavogsbæ, milljarður í plús

Rekstrarafkoma Kópavogsbæjar á árinu 2010 var betri en ráð var gert fyrir í fjárhagsáætlun ársins. Hún var jákvæð um 1.032 milljónir króna en árið á undan var hún neikvæð upp á 4.068 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða bæjarins varð 988 milljónum krónum betri en áætlunin.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í ársreikningi bæjarins fyrir árið 2010. Hann fer til fyrri umræðu í bæjarstjórn Kópavogs í dag.

Í tilkynningu til Kauphallarinnar segir að með áframhaldandi hagræðingu og útsjónarsemi tókst að halda uppi þjónustustigi í bænum á árinu. Tekjur bæjarfélagsins urðu heldur hærri en áætlað var en íbúum fjölgaði um 383 milli ára, eða í 30.697 í árslok 2010.



Aðrir þættir sem hafa áhrif á jákvæða rekstrarútkomu eru gengishagnaður erlendra langtímalána sem ekki var gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun og lækkun lífeyrisskuldbindinga en áætlun gerði ráð fyrir hækkun skuldbindingarinnar.

Útgjaldaliðir vegna félags-, fræðslu- og atvinnumála urðu hins vegar nokkuð hærri en áætlað hafði verið, en það skýrist helst af því efnahagsástandi sem ríkti á árinu. Má þar nefna að auknu fé var ráðstafað til atvinnuskapandi verkefna, einkum til sumarvinnu ungmenna.

Eigið fé bæjarfélagsins í árslok 2010 nam rúmlega 14 milljörðum króna en var 10,4 milljarðar árið á undan. Eiginfjárhlutfallið fór upp í 24%.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×