Viðskipti innlent

Gengi krónunnar svipað fyrir fyrir tæpu ári

Krónan hefur ekki verið veikari gagnvart helstu viðskiptamyntum í tæpt ár. Hefur hún að jafnaði veikst um ríflega 4% frá upphafi árs, en kúfurinn af þeirri veikingu kom reyndar fram á fyrstu vikum ársins.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að það sem af er maímánuði hefur krónan veikst lítillega gagnvart körfu helstu gjaldmiðla, en nokkur munur er hins vegar á þróuninni eftir því til hvaða viðskiptamyntar er horft. Þannig hefur krónan heldur styrkst gagnvart evru á tímabilinu en gagnvart Bandaríkjadollar og japönsku jeni hefur hún veikst um nærri 4%, og gagnvert bresku pundi nemur veikingin í maí rúmu prósentustigi.

Evran kostar nú 163,4 kr., Bandaríkjadollar kostar 115,4 kr., pundið 187,7 kr. og jenið 1,426 kr.

Millibankamarkaður með gjaldeyri hér á landi fer fram í viðskiptum með evru gegn krónu, og fylgir gengisþróun krónu gagnvart öðrum gjaldmiðlum evru í meiri mæli en öðrum gjaldmiðlum til skamms tíma.

Millibankamarkaðurinn er raunar enn afar smár í sniðum og líða oft nokkrir dagar milli viðskipta þar. Þannig nam heildarvelta í aprílmánuði ríflega 5,5 milljörðum kr. og þar af keypti Seðlabankinn evrur fyrir tæpan milljarð. Seðlabankinn hefur haldið uppteknum hætti og keypt 1,5 milljónir  evra í viku hverri það sem af er ári.

„Bankinn hefur gefið í skyn að honum væri ekki á móti skapi að auka þessi kaup, en væntanlega hefur veiking krónunnar orðið til þess að draga úr áhuganum á slíkri aukningu. Verður fróðlegt að fylgjast með því hvort aukið gjaldeyrisinnstreymi með sumrinu muni hvetja bankann til að bæta í þessi kaup sín, en hann er væntanlega undir nokkrum þrýstingi frá stjórnvöldum að standa ekki gegn styrkingu krónunnar eftir þann fyrirvara sem settur var í kjarasamninga um slíka styrkingu,“ segir í Morgunkorninu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×