Viðskipti innlent

Sérstakur saksóknari með milljón tölvupósta í Kaupþingsrannsókn

Ólafur Þ. Hauksson er sérstakur saksóknari. Mynd/ Stefán.
Ólafur Þ. Hauksson er sérstakur saksóknari. Mynd/ Stefán.
Ef rannsóknir Sérstaks saksóknara dragast fram úr hófi,  kann það að leiða til refsilækkunar eða frestunar á fullnustu refsingar,  komi til ákæru og sakfellingar. Embættið fékk milljón tölvupósta sem nýtast munu við Kaupþingsrannsókn en engar grunsemdir eru um að gögnum hafi verið fargað þótt embættið hafi fengið þau seint og um síðir.

Enn sem komið er hefur embætti sérstaks saksóknara aðeins gefið út ákærur í tveimur málum sem það hefur haft til rannsóknar. Innherjasvikum sem Baldur Guðlaugsson var sakfelldur fyrir í héraðsdómi og í svokölluðu Exeter-máli, þar sem fyrrverandi stjórendur Byrs sparisjóðs og MP banka voru ákærðir fyrir umboðssvik.

Nú er um ár liðið frá því að fyrrverandi stjórnendur Kaupþings voru hnepptir í gæsluvarðhald vegna aðildar sinnar að meintri markaðsmisnotkunar Kaupþings en hin meintu brot eru rækilega rakin í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Það sem hefur tafið rannsókn sérstaks saksóknara á málefnum Kaupþings er aðallega bið eftir gögnum, en fyrst í febrúar síðastliðnum fékk embættið gögn sem voru haldlögð í húsleit í Banque Havilland-bankanum í Lúxemborg.

Eitt alvarlegasta brotið sem stjórnendur Kaupþings eru grunaðir um tengist láni til félagsins Lindsor Lindsor Holdings Corporation hinn 6. október 2008, sama dag og neyðarlög voru sett á Íslandi og Kaupþing fékk 500 milljóna evra neyðarlán frá Seðlabanka Íslands.

Stjórnendur Kaupþings eru grunaðir um umboðssvik vegna lánveitinga til félagsins en lánin voru notuð til þess að kaupa skuldabréf af Kaupþingi í Lúxemborg, einstökum starfsmönnum bankans og félagi í eigu Skúla Þorvaldssonar.

Þar sem svo langur tími leið frá hruni og hinum meintu brotum má velta því fyrir sér hvort gögnum hafi hreinlega ekki verið fargað. Rúmlega ein milljón tölvupósta var haldlögð í húsleitinni í Lúxemborg og samkvæmt upplýsingum fréttastofu hafa rannsakendur sérstaks saksóknara engar vísbendingar fengið um förgun tölvupósta.

Lagðar eru þær skyldur á rannsakendur í lögum um meðferð sakamála að hraða rannsóknum eins og kostur er. Ef ákæruvaldið getur ekki sýnt fram á málefnalega drætti á rannsóknum sakamáls kann það að leiða frestunar á fullnustu refsingar eða refsilækkunar þegar og ef til sakfellingar kæmi. Fulltrúar sérstaks saksóknara fullyrða að þær tafir sem orðið hafi á rannsóknum embættisins á málefnum Kaupþings banka megi rekja til dráttar á afhendingu gagna sem höfðu lykilþýðingu fyrir rannsóknina.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×