Viðskipti innlent

Björgólfur hafði betur: Máli Wessman vísað frá dómi

Valur Grettisson skrifar
Róbert Wessman.
Róbert Wessman.
Dómari Héraðsdóms Reykjavíkur féllst á frávísunarkröfu Novator í dag í skuldamáli sem athafnamaðurinn Róbert Wessman höfðaði gegn fyrirtækinu, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar.

Róbert krafðist vangreiddrar árangurstengdrar þóknunar upp á um 30 milljónir evra, sem gera 4,6 milljarðar króna, af félögunum Novator Pharma Holding og Novator Pharma.

Róbert var forstjóri Actavis til ársins 2008. Athafnamennirnir tveir, Björgólfur og Róbert, deildu um það hvernig starfslokum Róberts hefði borið að. Þannig vildi Björgólfur meina að Róberti hefði verið sagt upp, því neitaði hinsvegar Róbert sem krafðist í kjölfarið árangurstengdrar þóknunar.

Átökum á milli Björgólfs og Róberts er þó hvergi lokið. Actavis Group stefndi Róberti til greiðslu skuldar upp á 300 milljónir króna vegna kúluláns sem Róbert fékk hjá félaginu til að kaupa hlutabréf í því.

Þá hefur BeeTeeBee Ltd., sem er í eigu Björgólfs Thors, stefnt Róberti og Burlington Worldwide Limited til greiðslu 1,2 milljarða skuldar vegna annars láns samkvæmt frétt sem birtist á vef DV í apríl síðastliðnum.

Talsmenn Róberts segja að þeir séu að fara yfir úrskurðinn og enn sé óákveðið hvernig brugðist verður við honum.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×