Viðskipti innlent

Útboð á ríkisbréfum hjá Lánamálum ríkisins á morgun

Útboðið gekk mjög vel síðast.
Útboðið gekk mjög vel síðast.
Á morgun, klukkan 11:00, fer fram útboð á ríkisbréfum hjá Lánamálum ríkisins samkvæmt morgunkorni greiningadeildar Íslandsbanka.

Að þessu sinni verða tveir flokkar í boði, þ.e. óverðtryggði flokkurinn RIKB12 og verðtryggði flokkurinn RIKS21. Líkt og undanfarið ræður lægsta samþykkta verð (og þar með hæsta ávöxtunarkrafan) söluverðinu og er útboðið í samræmi við útgáfuáætlun Lánamála.

Góð spurn var eftir bréfum í verðtryggða flokknum RIKS21 í síðasta útboði Lánamála á flokknum sem fór fram í lok apríl, en það var fyrsta útboðið á honum á árinu. Hljóðuðu tilboð í flokkinn upp á 6,0 ma.kr. að nafnverði og ákváðu Lánamál að taka tilboðum fyrir 5,6 ma.kr. á ávöxtunarkröfunni 2,70%.

Niðurstöðukrafan var í takti við kröfu bréfanna þennan dag og var hún sú næstlægsta frá því flokkurinn var fyrst í boði sem var fyrir rúmu ári síðan. Nú í maí hefur krafan hækkað nokkuð og í lok dags í gær stóð hún í 2,87%.

Má því telja nokkuð líklegt að niðurstöðukrafan verði hærri nú en í síðasta útboði. Flokkurinn er nú rúmlega 56 ma.kr. að stærð og er að mestu leyti í eigu verðbréfa- og fjárfestingarsjóða og svo lífeyrissjóða. Í lok mars síðastliðins áttu fyrrnefndu aðilarnir um 33% útistandandi bréfa í flokknum en þeir síðarnefndu um 30%.

Þetta er í fimmta sinn sem Lánamál bjóða upp á óverðtryggða flokkinn RIKB12 á þessu ári, en hann var síðast í boði nú snemma í maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×