Viðskipti innlent

Hitaveita Mannvits í Ungverjalandi komin í fullan rekstur

Ný hitaveita í Ungverjalandi, sem Mannvit hefur byggt, er nú komin í fullan rekstur.

Orkugeta hennar er 3,1 MW og útvegar hún nú 900 heimilum orku og heitt vatn. Umframgeta er til staðar fyrir fleiri heimili.

Hitaveitan er staðsett við bæinn Szentlörinc í suðvesturhluta landsins. Fjallað er um málið á vefsíðunni renewableenergyworld. Þar segir að orkan komi úr rúmlega 1.800 metra djúpri holu sem boruð var árið 2009.

Sem fyrr segir hefur Mannvit staðið að byggingu hitaveitunnar fyrir ungverska orkufélagið PannErgy í gegnum skrifstofu sína í Búdapest.

Heildarkostnaður við verkið er rúmlega 800 milljónir króna og hafa fleiri íslenskir aðilar en Mannvit notið góðs af verkinu þar sem töluvert af búnaði og tækniþekkingu var keypt frá Íslandi við byggingu hitaveitunnar.

Síðasta sumar lagði Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra ásamt Pál Kovács, vararáðuneytisstjóra þróunarmálaráðuneytis Ungverjalands, og Márk Győrvári, borgarstjóra Szentlörinc, hornstein að hitaveitunni í  Szentlörinc .






Fleiri fréttir

Sjá meira


×